Alicante - Menning og seiðandi sólskin
Alicante er gullfalleg spænsk borg sem iðar af lífi. Borgin er staðsett í höfuðborg Costa Blanca héraðsins og á sér sér langa og ríka sögu. Í miðbænum á hver steinn sína sögu og í borginni ríkir mikil matar- og vínmenning sem endurspeglast í þeim fjölda framúrskarandi veitingahúsa sem er að finna á svæðinu. Við bjóðum upp á fjölda góðra gististaða á Alicante þannig allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Ferð til Alicante sameinar því menningarlega borgarferð og sólarfrí. Við hana liggur frábær sjö kílómetra löng strönd og hótelin okkar eru staðsett nálægt ströndinni. Verðlag í borginni er hagstætt sem er enn ein ástæða fyrir vinsældum borgarinnar. Ölkrús á veitingastöðum borgarinnar kostar í kringum tvær evrur, eða í kringum 300 krónur og máltíð kostar á bilinu 10-20 evrur sem verður að teljast nokkuð gott.
Töfrandi menningarborg
Svæðið í kringum Alicante hefur verið í byggð í meira en 7000 ár. Sumar af elstu byggðunum eru í hlíðum Mount Benacantil fjallsins sem gnæfir yfir borgina. Kastalinn Santa Barbara stendur í hlíðum fjallsins í 166 metra hæð en hann er upprunalega frá 8. öld og hefur verið vel við haldið. Kastalinn hefur verið opinn almenningi í rúm 50 ár og það er mikil upplifun að heimsækja hann. Þar er líka stórbrotið útsýni yfir borgina og Costa Blanca svæðið allt. Enginn ætti að láta gamla bæinn í Alicante framhjá sér fara en það má segja að sál borgarinnar sé einmitt að finna þar, í þröngum götum og litlum húsum. Götur gömlu borgarinnar taka svo stakkaskiptum þegar kvöldar og næturlífið lifnar við.
Tabarca eyjan
Stutt frá Alicante er Tabarca eyjan og tilvalið er að eyða þar degi, eða eftirmiðdegi. Á eyjunni er lítill bær með litlum lágreistum húsum. Eyjan býr líka yfir stórbrotinni náttúrufegurð og fallegri strönd þar sem tært hafið glitrar og gaman er snorkla í aðgrunnu hafinu. Bátur til Tabarca eyjunnar fer frá höfninni í Alicante og kostar miðinn um 20 evrur.
Verslun og næturlíf
Gott er að versla í Alicante og þar eru nokkrar stórar verslunarmiðstöðvar. Ramblan er göngugata með góðu úrvali verslana, til dæmis El Corte Ingles, Zara, H&M okkar allra og fleiri góðar verslanir. Á Römblunni er ekki bara gaman að versla, heldur líka að spóka sig. Þar er að finna spennandi veitingastaði með gómsætum kræsingum frá öllum heimshornum. Við mælum sérstaklega með því að fólk láti ekki tapas að hætti heimamanna framhjá sér fara.
Næturlífið á Alicante hefur fyrir löngu getið sér gott orð út fyrir landssteinanna. Ferðalangar geta valið á milli aragrúa af börum, skemmtunum og diskótekum. Þar er bæði að finna stóra næturklúbba og minni bari. Gamli bærinn, El Barrio, er mjög líflegur á kvöldin sem og El Puerto þar sem skemmtistaðir eru opnir til morguns. Þar eru stór dansgólf og mikið fjör.
Gistingar á Costa Blanca svæðinu
Paraiso Centro er snyrtilegt, einfalt og mjög vel staðsett íbúðagisting stutt frá gamla bænum í Benidorm. Einfaldar, snyrtilegar og rúmgóðar íbúðir með einu eða tveimur svefnherbergjum, eldhúsi, baði, stofu og svölum sem snúa út í garð. Stutt er í alla þjónustu, t.d. matvörumarkaðinn Mercadona, banka og verslanir.